<$BlogRSDURL$>

...neikvæð, fordómafull og óábyrg en þó alltaf í góðum fíling

mánudagur, júní 04, 2007

Hef ákveðið að vera ekkert að þvælast með tvö blogg í gangi og ætla því að færa mig alfarið hingað
http://grumpa.blog.is/blog/grumpa/
|

fimmtudagur, maí 17, 2007


Nú er farinn í hönd mikill anna tími hjá mér sem þýðir að aðra hverja helgi í allt sumar verð ég að fylgjast með mótorhjólaakstri og oftast verður það einhversstaðar úti á landi. Motocross sísonið er sem sagt byrjað!
Ég var því á Hellu á laugardaginn síðasta og missti því af öllu kosningahavaríinu í bænum. Horfði ekki einu sinni á kosningasjónvarpið þar sem ég var sofnuð kl. 10, frekar þreytt eftir að hafa verið að labba upp og niður sandbrekkur í 7 klukkutíma. En ég kvarta ekki, það er öllum hollt að hreyfa sig aðeins utandyra og svo er ógeðslega gaman að taka af þessu myndir. Ég er líka þessi nastý ljósmyndari sem bíður eftir því á einhverjum góðum stað að menn fljúgi á hausinn og helst ofan í forarpytt og tek mynd af öllu saman og set á netið.

En ég ætla ekkert að fara að velta mér upp úr þessum kosningum, það eru nógu margir aðrir í því. Sjálfgræðisflokkurinn er kominn aftur í sitt venjulega fylgi, Framsókn var því miður ekki þurrkuð út (þökk sé kosningasmölum á elliheimilum landsins) og ríkisstjórnarlufsan situr eflaust sem fastast (þökk sé Ómari Ragnarssyni).
Kosningabaráttan fór líka voða mikið framhjá mér. Ég horfi reyndar ekki á sjónvarp og aðrir í húsinu sáu um að henda öllum áróðurspésum í ruslið. Við í vinnunni fengum bara 4 heimsóknir af örvæntingarfullum þingmannakandídötum. Einn spilaði á harmonikku, annar tók létt ballettspor þar sem við heimtuðum skemmtiatriði af öllum eftir að harmonikkuleikarinn var búinn að koma, sá þriðji sagði fimmaurabrandara og þeim fjórða var ekki hleypt inn (við einfaldlega nenntum ekki að hlusta á Gunnar Birgisson segja okkur hvað það væri gott að búa í Kópavogi).

Það var Skruddukvöld á síðasta sunnudag. Fámennt en afar góðmennt. Tensai San og Hammer voru m.a.s að stinga upp á því að við myndum horfa á einhverja 40s svart/hvíta japanska mynd sem öll var leikin á táknmáli. Persónurnar eru aðeins tvær í allri myndinni og eru staddar í sitt hvoru herberginu allan tímann og önnur þeirra sofandi. En hvað er það miðað við að aumingja Hammer þurfti að sitja undir 5 tíma löngum flautukonsert eftir Atla Heimi Sveinsson fyrr um daginn. Þegar þetta var að skella á birtist þá ekki Móðir Jörð sem frelsandi engill þannig að það varð fundarhæft. Næsti Skruddufundur verður svá haldinn á Eyrarbakka sem verður mjög skemmtileg tilbreyting. Það eina er að þá fær Móðir Jörð að velja næstu bók. Kæmi mér ekki á óvar að þurfa að lesa franskar miðaldabókmenntir uppfullar af táknfræði sem enginn skilur, ekki einu sinni höfundurinn þar sem hann var að drepast úr skyrbjúg og sífilis þegar hann skrifaði bókina og var með óráði og skrifaði bara niður það sem raddirnar í höfðinu á honum sögðu. En það getur varla verið verra en Hroki og hleypidómar...eða hvað!?
|

sunnudagur, apríl 22, 2007


Það er ferlegt hvað ég er búin að vera bissí undanfarið. Fyrst voru það æðislegir páskar í sveitasælunni í Kjarnholti til að fagna því að Tensai San er nú komin á fertugs aldurinn svo var það Skruddukvöld hér á Laugaveginum á sunnudagskvöldið og svo á þriðjudagsmorguninn var haldið í sólina á Spáni. Talandi um bissí læfsæl!
Ég vil alveg sérstaklega þakka Tensai San fyrir þessa frábæru hugmynd að halda upp á afmælið sitt með þessum hætti. Ég er svei mér þá að hugsa um að gera eitthvað svipað þegar ég verð 35 en það er nú enn langt í það! Þarna var étið og drukkið út í eitt enda kom Tensai með sendiferðabíl fullan af mat svona just in case og aðrir gestir eitthvað svipað þannig að þegar Forski mætti á sínum netta heimilisbíl til að skutla okkur tveim heim var afgangurinn svo mikill að ég gat með naumindum troðið mér í aftursætið og þurfti að sitja með risastóran bangsa í fanginu (sem var eina af hinum fjölmörgu gagnlegu gjöfum sem afmælisbarninu áskotnuðust) alla leið í bæinn.
Eitt af því sem gert var til skemmtunar þarna í sveitinni var að eitt kvöldið var farið í actionary. Allt í góðu með það og rosa gaman. Þetta var þó ekkert venjulegt actionary þar sem Tensai San hafði tekið sig til og samið sjálf atriðin sem átti að leika og þetta voru engin venjuleg atriði get ég sagt ykkur strax. Þarna átti fólk t.d að leika Vígahross. Hvað er það!! Og fjallið Grábrók og kom það vel á vondan að frú San þurfti að leika það sjálf! En þetta var bara það auðvelda. Svo komu atriði eins og Blautur kaffikorgur ruslafötu, 18" pizza með sveppum og lauk, Hani að labba í kring um brúnan hænsnakofa við sólarupprás seint í júlí og Blindur maður inni í dimmu herbergi að leita að svörtum ketti sem er þar ekki. Næst drekkur Tensai San aðeins minna af IKEA kaffi áður en hún semur spurningarnar eða lætur bara einhvern annan um það!

Maður var rétt svo kominn heim úr páskafríinu þegar kom að því að Skruddurnar hittust til að kryfja hið mikla stórvirki bókmenntanna, Hroki og hleypidómar til mergjar þar sem það var sú bók sem Frú Líkjör hafði valið sem bók mánaðarins (ég á ennþá eftir að ná mér niðri á henni). Ég að sjálfsögðu keypti þessa merku bók og ákvað að sleppa öllum fordómum og gefa henni séns. En það var sama hvað ég reyndi, ég gat hreinlega ekki lesið nema nokkrar blaðsíður án þess að stein sofna. Sama hversu glað vakandi ég var þegar ég byrjaði lesturinn. Ég reyndi að hella í mig sterku kaffi, drekka kippu af Magic, opna alla glugga þannig að hitastigið í húsinu var við frostmark, standa á öðrum fæti í fötu fullri af köldu vatni, stinga ísmolum oní buxurnar...just name it. En hvað sem ég reyndi þá varð ég að játa mig sigraða á blaðsíðu 40, ég gat bara ekki komist lengra. En hversu margar blaðsíður af langdregnum lýsingum á dansleikjum og hver dansaði við hvern og hver talaði ekki við hvern er hægt að þola?? Thor Vilhjálmsson come back, all is forgiven!!

Þegar þetta er skrifað er ég svo nýkomin heim frá Spáni þar sem ég hafði það gott í sólinni í nokkra daga. Alveg perfect veður, svona 20-25 stiga hiti og léttskýjað. Fullkomið veður til bjórdrykkju utandyra. Fór þarna með nokkrum föngulegum karlmönnum (sjá mynd) sem reyndu hvað best þeir gátu að beinbrjóta sig á mótorhjólum. En allir komu þeir aftur og enginn þeirra dó, eins og segir í kvæðinu. Spánverjar virðast þó ekki getað eldað almennilegan mat á þessum miðlungs veitingastöðum sínum, alla vega ekki á þessu svæði. Það var farið út að borða á hverju kvöldi og fólk fékk t.d kjúkling sem var eflaust búinn að vera í ofninum frá deginum áður, sjávarréttasúpu sem bæði lyktaði og bragðaðist eins og slor, lax sem hafði verið veiddur og frystur um síðustu aldamót og pizzu sem var örugglega upphituð Ömmupizza. Og svo voru franskar kartöflur með nákvæmlega öllu. Það hefði ekki komið mér á óvart að fá franskar með soðinni ýsu ef ég hefði pantað mér eitthvað þannig. En bjórinn ver fínn og rauðvínið eðall svo þeim er fyrirgefið.
Svo er það núna bara spurningin hvert ætti ég að fara næst:D
|

laugardagur, mars 31, 2007


Ég er búin að henda inn nýju bloggi hér:
http://grumpa.blog.is/blog/grumpa/
|

mánudagur, mars 26, 2007


Ég var í London í síðustu viku. Skrapp bara rétt si svona áður en ég fer til Spánar eftir páskana. Anyway, tilgangur þessarar ferðar var að berja augum og eyrum hina margrómuðu hljómsveit Warrior Soul. Skemmst er frá að segja að tónleikarnir voru gargandi snilld svo vægt sé til orða tekið og Kory Clarke er mesti töffari í heimi. Gítarleikarinn í bandinu var heldur ekkert slor (sjá mynd) og er honum fyrirgefið að vera sænskur. Ég held ég verði bara að kíkja til Stokkhólms, það lítur út fyrir að það hafi heilmikið breyst þar til batnaðar síðan '86!
En ég fór ekki ein í þessa pílagrímsferð og ekki var félagsskapurinn af verri endanum þar sem voru Gözli og Satan Jarl. Það var því næsta víst að kíkt yrði á pöbb eða tvo og drukknir nokkrir bjórar og þeim síðan skolað niður með whiskey. Að ferðast með tveim karlmönnum hefur bæði sína kosti og galla. Kostirnir eru tvímælalaust þeir að maður þarf ekki að þræða fatabúðir eða snyrtivöruverslanir og þess þá síður barnafatabúðir og ef maður stingur upp á því að fá sér blóðuga nautasteik í hádeginu og líter af bjór með er tillagan samþykkt samhljóða með lófaklappi og fagnaðarlátum. Að eyða klukkutíma inni í whiskeybúð er heldur ekki litið illu auga og þegar annar ferðafélaginn fjárfesti í hvítum kúrekastígvélum fékk henn ekkert nema hrós og hvatningarorð enda er það mikið rokk.
En eins og ég sagði eru líka gallar á þessu fyrirkomulagi. Til að geta keypt meiri bjór og meira whiskey ákváðum við að vera öll saman í herbergi sem hefði verið í fínu lagi nema hvað Gözli virtist ekki hafa borðað neitt nema baunir og rúgbrauð síðustu tvær vikurnar sem var á þessum tímapunkti farið að gerjast all verulega í innyflunum og eina leiðin fyrir óhóflega gasmyndun var að hleypa því út í tíma og ótíma okkur hinum til hrellingar. Þetta byrjaði m.a.s í leigubílnum á leiðinni frá flugvellinum. Okkur algerlega að óvörum hleypir Gözli út einni góðri laumu og áður en maður veit af er mann farið að sundla og ekkert hægt að forða séstuck inni í leigubíl á fullri ferð. Bílstjórinn hefur eflaust líka fengið nett aðsvif þar sem aksturinn varð allt í einu mjög undarlegur. Svona gekk þetta svo í þrjá daga thank you very much.
En ég þurfti ekki bara að þola loftmengun á við útblástur frá loðnubræðslu heldur lenti ég líka í slæmri hávaðamengun þar sem Satan Jarl hraut eins og grjótmulningsvél milli þess sem hann blés eins og búrhveli. Ég get svarið það að það voru sprungur í herbergisloftinu sem voru ekki þar þegar við komum.
Ég verð líka aðeins að minnast á hótelið. Eins og ég sagði þá var ákveðið að vera ekki að spreða í svoleiðis hluti þannig að valið var tiltölulega ódýrt en þó 3ja stjörnu hótel nálægt Paddington, þar sem vegir liggja til allra átta eins og segir í kvæðinu. Allt leit alveg ágætlega út í byrjun, lítið en huggulegt lobbí og fínasta borðstofa. But that was it. Loksins þegar við römbuðum á herbergið eftir að hafa gengið bæði upp og niður tröppur en alltaf þó verið á sömu hæðinni tók á móti okkur miðlungs stór fataskápur þar sem hitastigið var um frostmark (það var örugglega hlýrra úti). Ástæðan var sú að það voru einhverjar framkvæmdir í gangi á þakinu (komumst að því mjög hastarlega kl. 9 morguninn eftir) því þegar horft var í gegn um viftu í baðherbergisloftinu sá maður upp í heiðan himinn. Enskukunnátta starfsmanna hótelsins var auk þess álíka mikil og dönskukunnáttan mín og allan tímann sem við vorum þarna var hótelbarinn lokaður. Það var þó hægt að láta færa sér drykki inn í setustofuna ef maður hafði allan tíma í heiminum og tók áhættuna á því að fá billiardborð með kjuðum þegar maður hafði pantað Bailys í klaka.
En fyrir utan þessi óþægindi og utanaðkomandi mengun var þetta skemmtilegasta ferð og myndi ég hiklaust fara aftur. En er ekki allt að fara að fyllast af álverum? Gott að vera búin að mynda mengunaróþol. Gæti þó hugsað mér að vera bara ein í herbergi næst:D
|

sunnudagur, mars 11, 2007


Nú er úti veður vott
verður allt að klessu
Ekki fær hann Grímur gott
að gifta sig í þessu.

Ja hvað dettur manni annað í hug við að horfa út um gluggann þessa stundina? Rok og rigning! Ég þakka þó fyrir að vera ekki einhversstaðar á suðurlandsflatlendinu þar sem að mér skilst að sé ROK og RIGNING!
En anyway, ég fór í leikhús á föstudagskvöldið. Starfsmannafélagið í vinnunni ákvað að bjóða í leikhús og sýningin Pabbinn varð fyrir valinu. Það er sem sagt einleikur þar sem Bjarni Haukur Þórsson lýsir raunum manns sem lendir í því að verða pabbi á mjög svo raunsæjan hátt. Þar kom skýrt fram, eins og ég hef alltaf bent á, að foreldrar eru upp til hópa ósofnir, úrillir, pirraðir, geðstirðir, langþreyttir, tuskulegir, úttaugaðir með harðlífi og meltingartruflanir, útslefaðir og kámugur, með kúkalykt á puttunum þegar verst lætur, orðnir tilfinningadofnir og heyrnasljóir af endalausu orgi og látum og skítastaðall heimilisins álíka hár og verðbólgan í Zimbabwe. Líf þessa aumingja fólks er sem sagt búið (eins og ég er alltaf að útlista fyrir einum vinnufélaga mínum sem eignaðist krakka ekki fyrir löngu, held ég verði samt að fara að hætta því, hann verður alltaf eitthvað svo skelfdur á svipinn) en samt lifir þetta fólk í þeirri sjálfsblekkingu að þetta sé eitthvað sérstaklega eftirsóknarvert ástand. Og ekki nóg með það heldur reynir að telja öðru blásaklausu fólki trú um það sama!
Og þetta skánar ekkert þó að börnin vaxi úr grasi. Ó nei! Ég hef nefnilega fylgst með raunum vina minna sem eiga unglinga (nefni hér engin nöfn). Það er þó hægt að stinga snuði upp í lítil börn og þau þegja á meðan en það virkar víst ekki á unglingana. Það þarf miklu, miklu meira. Þeir vilja ný föt, iPod og Playstation, fartölvur, frítt fæði og húsnæði og fullan ísskáp af mat sem þeir geta gengið í ásamt 8 vinum sínum allan sólarhringinn, peninga og helst mikið af þeim, vilja svo bara sofa á dagin og nenna ekki í skóla og þess þá síður nenna þeir að vinna. Svo er litið á foreldrana sem hálf þroskaheftar risaeðlur sem vita ekkert og skilja ekkert.
Foreldrum til huggunar þá vaxa flestir upp úr gelgjunni svona milli tvítugs og þrítugs. En hvað tekur þá við? Ró og næði? Dream on!! Þá koma barnabörni organdi og slefandi. Þið losnið sem sagt aldrei út úr þessu. ALDREI!!!!
|

sunnudagur, febrúar 25, 2007


Þó að ég hafi verið löt við að blogga undanfarið þá þýðir það ekki að það sé ekkert að gerast. Þvert á móti. Ég veit varla hvar á að byrja. Tensai San á leiðinni á Þing, Forski formlega útskrifuð sem Ismafræðingur og varð svo mikið um að hún fékk gigtarkast, Skruddurnur héldu stofnfund og Móðir Jörð lagði á sig langt og strangt ferðalag úr öðrum landshluta til að geta setið stofnfundinn og ég fór út að borða á Austur-Indíafjelaginu á laugardagskvöldið og át mér til óbóta (sem breytti því þó ekki að ég hefði verið til í að smakka á Sandholts súkkulaðikökunni sem Monopoly þurfti endilega að tilkynna mér að hún væri að borða).

En byrjum á frétt dagsins sem er auðvitað sú að Tensai San (mynd af henni að flytja framboðsræðuna er hér til hægri) er verðandi þingmaður og ef ekki bara ráðherra. Hún ákvað sem sagt að skella sér í framboð fyrir Vinstrihreyfinguna Græna Fingur til að geta látið gott af sér leiða. Ég ákvað því að kynna mér nánar stefnu flokksins.
Þar segir meðal annars að Vinstrihreyfingin Bleikir Fílar ætli að beita sér fyrir jafnrétti og bræðralagi, ást og umhyggju ásamt almennri fegurð að innan sem utan. Þá mun Vinstrihryfingin Fjólublátt Ljós við Barinn beita sér fyrir því að ekki verði framar skert hár á höfði einnar einustu þúfu á Íslandi og litlu sætu trén og blómin fái að vaxa og dafna í friði fyrir alþjóðlegum auðhringjum sem hafa mannhatur og skemmdarfísn eina að leiðarljósi. Einnig mun Vinstrihreyfingin Rauðir Hundar leitast við að jafna hlut karla og kvenna og með það að leiðarljósi verða karlar skikkaðir til að ganga um á háum hælum, þvo þvott og fara með börnin í stórmarkaði síðdegis á föstudögum. Vinstrihreyfingin Purpla Haze mun heldur ekki skorast undan ábyrgð þegar kemur að utanríkismálum og hefur ákveðið að senda fulltrúa á næstu Júróvisjónkeppni.
Þetta eru allt saman góð og göfug markmið og efast ég ekki um að þingmannsefnið okkar eigi eftir að hinna hug og hjörtu kjósenda.

Eins og fram hefur komið þá var stofnaður menningar- og bókmenntaklúbbur um daginn sem fékk heitið Skruddurnar. Markmiðið er að lesa eina bók á mánuði og hittast síðan og rökræða efni hennar auk annara gáfulegra hluta sem klúbbfélögum kunna að liggja á hjarta. Stofnfundur var haldinn hjá Tensai san og hristi hún fram úr erminni hverja kræsinguna af annari eins og t.d heimatilbúið hnetusmjör, bollur sem hún hafði bakað fyrr um daginn og rækjurétt sem hún fékk aðstoð frá Hammer við að taka út úr ofninum þar sem hún var of bissí við að þeyta rjóma og bera fram heimatilbúna sultu og snúast í kring um Frú Líkjör. Þar sem Tensai San hélt stofnfundinn fékk hún að ráða hver fyrsta lesningin væri og mæltist hún til að bókin "Þar sem vorið vaknar í hildjúpi sálarinnar og breiðir faðminn mót hnarreisum fleyjum hugans" eftir Thor Vilhjálmsson væri lesin þar sem hún væri í miklu uppáhaldi hjá sér.
Næst verður hist hjá Frú Líkjör og bókin sú arna krufin til mergjar og mun Tensai San flytja framsögu.

Þeir sem hafa lesið bloggið hjá Forska hafa varla komist hjá því að taka eftir að hún búin að hella sér út í líkamsræktina á fullu. Það er mætt í ræktina eldsnemma á morgnana meðan allt venjulegt fólk sefur ennþá værum blundi og svo hleipur hún orðið frá sér ráð og rænu. En hvað er upp úr þessu öllu að hafa? Ég geri ráð fyrir að Forski vilji bæti hreysti og vellíðan og fá hraustlegt og gott útlit þar að auki. En hvað gerist? Á föstudagskvöldið boðar Forski komu sína, segist vera í nágrenninu. 2 tímum seinna staulast hún með erfiðismunum hérna upp tröppurnar, komin með gigt og bakveiki og orðin slæm í mjöðminni af öllu spriklinu. Ég tók í snatri upp rauðvínsflösku enda sá ég að það var orðið illt í efni og Forski þurfti nauðsynlega á hjálp að halda ef þetta átti ekki að enda með ósköpum. Það er skemmst frá því að segja að Forski hélt heim á leið einni rauðvínsflösku seinna spræk sem unglamb og kenndi sér einskis meins.
Það sem hrjáir fólk nú til dags er að það drekkur ekki nógu mikið rauðvín og borðar ekki nógu gott súkkulaði.
|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?